Erlent

Arabi gabbaði Kaupþing Noregi

Rúmlega hundrað og tuttugu milljónir króna úr sjóðum Kaupþings í Noregi fóru í súginn eftir að arabískur kaupsýslumaður narraði starfsmenn þess til hlutabréfakaupa. Þótt upphæðin sé ekki há á mælikvarða fyrirtækisins þykir málið hið vandræðalegasta.

Þetta kemur fram í grein í norska blaðinu Dagens næringsliv og að því er forsvarsmenn Kaupþing banka segja hefur málinu þegar verið vísað til lögreglu og norska fjármálaeftirlitsins. Forsaga þess er sú að snemma á þessu ári hafði fjárfestir frá Abu Dhabi samband við Kaupþing í Noregi og vildi selja þeim hlutabréf fyrir 11 milljónir Bandaríkjadala. Miðlarar Kaupþings féllust á það og seldu svo bréfin áfram. Þegar til kastana kom fengust bréfin hins vegar ekki afhent enda var arabíska fjárfestinn hvergi að finna. Til að standa við sína samninga varð Kaupþing því að kaupa bréf annars staðar frá en í millitíðinni hafði gengið hækkað verulega. Bankinn stóð því uppi með um tíu milljóna norskra króna tap, um 120 milljónir íslenskra króna.

Hagnaður KB-banka á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam 18,8 milljörðum króna og í því samhengi er þessi upphæð ekki ýkja há. Málið þykir aftur á móti býsna neyðarlegt.

Einum yfirmanna Kaupthings Norge hefur þess vegna verið sagt upp störfum en hann átti að hafa eftirlit með frágangi viðskipta. Ekki er þó talið að hann eigi beinan þátt í málinu heldur hafi hann brotið reglur um greiningu viðskiptamanna. Sá telur uppsögn sína ólöglega og íhugar því að stefna Kauptþingi fyrir vikið.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×