Erlent

Stjórnarskrársáttmálinn saltaður

Jacques Chirac var vígreifur á leiðtogafundi ESB í dag.
Jacques Chirac var vígreifur á leiðtogafundi ESB í dag. MYND/AP

Engin niðurstaða fékkst á leiðtogafundi Evrópusambandsins, sem fram fer í Brussel, um hvað gera skuli við umdeildan stjórnarskrársáttmála þess.

Allt frá því að Hollendingar og Frakkar höfnuðu stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslum hefur framtíð ESB verið í lausu lofti. Aðildarríkin virðast skiptast í tvö horn eftir því hvort þau vilji kasta plagginu alfarið fyrir róða eða láta Hollendinga og Frakka kjósa aftur þar til önnur niðurstaða fæst, en slík vinnubrögð eru ekki óþekkt hjá sambandinu. Í dag settist leiðtogaráð ESB á rökstóla í Brussel í Belgíu og ræddi hvað til bragðs skyldi taka. Það er skemmst frá því að segja að ekkert samkomulag náðist um örlög stjórnarskrársáttmálans, aðeins var ákveðið að hittast aftur í Þýskalandi að ári til frekari viðræðna og reka svo smiðshöggið á málið árið 2008.

Leiðtogarnir ræddu ýmislegt annað en stjórnarskrársáttmálann. Til dæmis lögðu þeir blessun sína yfir nýja áætlun um fjárstuðning við Palestínumenn upp á tæpa tíu milljarða króna sem þó mun ekki fara um hendur Hamas-stjórnarinnar og eins var Slóvenum heimilað formlega að taka upp evruna í byrjun næsta árs.. Þá var framkvæmdastjórninni falið að skilgreina getu sambandsins til að taka við fleiri aðildarríkjum. Hins vegar var fallið frá því að gera slíkt mat að skilyrði fyrir inngöngu nýrra ríkja, nokkuð sem ríki á borð við Tyrki höfðu óttast mjög.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×