Erlent

Fimm unglingar skotnir í New Orleans

Fimm unglingar voru skotnir til bana í New Orleans í Bandaríkjunum í gær. Þetta er versta fjöldamorð í sögu borgarinnar.

Íbúar New Orleans eru slegnir miklum óhug eftir að lík fimm ungmenna á aldrinum 16-19 ára fundust í og við bíl þeirra snemma í gærmorgun. Vettvangurinn var blóði drifinn og tóm skothylki lágu í hrönnum við bílinn. Flest fórnarlambanna virðast hafa dáið samstundis, nema einn piltanna er talinn hafa skriðið nokkurn spotta helsærður.

Ekkert er vitað hverjir voru þarna að verki en lögregla álítur að morðin hafi verið framin í hefndar- eða refsiskyni af fíkniefnasölum enda er hverfið sem líkin fundust í alræmt fyrir glæpi af ýmsu tagi. Ekki hefur átt að hræða unglingana heldur eltu morðingjarnir þau uppi beinlínis í þeim tilgangi að drepa þá.

Morðtíðni var til skamms tíma afar há í New Orleans en eftir að fellibylurinn Katrín lagði borgina nánast í eyði á síðasta ári dró mjög úr glæpum. 52 morð hafa verið framin það sem af er þessu ári. Íbúarnir óttast hins vegar að ofbeldisverkum fari fjölgandi á ný og virðast atburðir gærdagsins renna stoðum undir það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×