Charles Taylor, fyrrverandi forseti Líberíu, kom til Hollands í kvöld þar sem réttað verður yfir honum en hann er ákærður fyrir stríðsglæpi í 10 ára borgarastríði í Sierra Leone.
Af öryggisástæðum ákvað sérskipaður dómstóll í máli hans, sem var staðsettur í Sierra Leone, að flytja réttarhöldin til Haag. Hollendingar samþykktu að réttað yrði yfir honum þar í landi ef hann yrði látinn afplána annars staðar. Í síðustu viku samþykktu Bretar svo að hýsa hann í fangelsum sínum verði hann sakfelldur.
Taylor sá skæruliðahópum í Sierra Leone fyrir vopnum og seldi fyrir þá demanta. Hann flúði til Nígeríu árið 2003 þegar honum var steypt af stóli. Hann var svo handtekinn og framseldur í mars síðastliðnum.