Innlent

Ákærðu færu mikinn í fjölmiðlum

Settur saksóknari í Baugsmálinu sagði í Héraðsdómi í morgun, að ákærðu í málinu hefðu farið mikinn í fjölmiðlum með ósanngjarni gagnrýni á ákæruvald og dómsmálaráðherra. Verjandi Jóns Geralds Sullenberger sagði engin ný gögn komin fram í málinu, sem réttlættu að hann væri ákærður.

Enginn sakborninga í Baugsmálinu var viðstaddur málfluting í héraðsdómi í morgun. Verjendur þeirra Jóns Ásgeirs, Tryggva Jónssonar og Jóns Geralds Sullenbergers, hafa allir farið fram á að málinu verði vísað frá dómi.

Verjandi Jóns Geralds furðaði sig á ákærunni gegn honum. Hann sagði ljóst frá upphafi að Jón Gerald hefði viðurkennt að hafa gefið út tilhæfulausan reikning. Þrátt fyrir það hefði saksóknari ekki talið það nægjanlega ástæðu til að ákæra hann við upphaf málsins. Engin ný gögn hefðu komið fram og því væri furðulegt að ákæra Jón Gerald nú.

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, gagnrýndi ákærðu í málinu fyrir að fara mikinn í fjölmiðlum með ósanngjarni gagnrýni á ákæruvaldið og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Þeir væru með þessu að reyna að draga athyglina frá brotum sínum. Hann sagði ekkert óeðlilegt við þann tíma sem tekið hefði að gefa út ákæru frá því málinu var vísað frá dómi. Málið væri umfangsmikið og flókið.

Sigurður Tómas sagði að rannsóknin næði til fimm landa og þurft hefði að skoða bókhald fjölda fyrirtækja. Alls hefðu 66 vitni verið yfirheyrð og 18 sakborningar. Þá hefði oft þurft að ganga hart á eftir mönnum að mæta í skýrslutöku, þar sem sakborningar dveldu langtímum í útlöndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×