Innlent

Fátæk börn í boltagerð

Áætlað er að þúsundir barna frá fátækum þorpum í kringum höfuðborg Indlands, Nýju-Delhí, vinni fjölskyldum sínum inn aukatekjur með því að handsauma fótbolta. Börnin sem fréttamenn AP-fréttastofunnar hittu á ferð sinni á dögunum voru allt niður í 10 ára gömul og unnu í átta tíma á dag til að öngla saman smáaurum fyrir fjölskyldur sínar. Hvert barn getur klárað að meðaltali tvo bolta á dag og fær fyrir það rétt rúmar ellefu krónur íslenskar.

Ekkert eftirlit er með vinnu barnanna eða aðbúnaði þeirra en þeim er hætt við sýkingum í skurði sem þau verða fyrir við saumavinnuna.

Alþjóðaknattspyrnusambandið segir alla fótbolta sem notaðir eru í keppnum á vegum samtakanna koma frá framleiðendum sem hafna og fordæma barnaþrælkun. Barnaverndarsamtök á Indlandi segja hins vegar að þar sé enginn opinber eftirlitsaðili sem fylgist með því að börn séu ekki notuð við framleiðslu boltanna, loforð fótboltafyrirtækjanna um að börn vinni ekki við saumaskapinn séu því ekki endilega mikils virði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×