Erlent

Evrópublaðið fundar í dag vegna skýrslu um fangaflugs CIA

Ein þeirra flugvéla sem grunur leikur á að flytji fanga á milli BNA og Evrópu lenti á Reykjavíkurflugvelli síðastliðið haust.
Ein þeirra flugvéla sem grunur leikur á að flytji fanga á milli BNA og Evrópu lenti á Reykjavíkurflugvelli síðastliðið haust. Mynd/Atli Már Gylfason.
Evrópuráðið kemur saman til fundar í dag til að ræða skýrslu rannsóknarnefndar ráðsins um fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar. Þar verður meðal annars hlýtt á vitnisburð manna sem segjast hafa sætt pyntingum þegar þeir voru í haldi Bandaríkjamanna.

Fram kemur á fréttavef BBC að ráðið muni hlýða á upptökur af vitnisburði mannanna sem segjast hafa verið beittir harðræði og jafnvel pyntaðir eftir að bandaríska leyniþjónustan, CIA, hafði tekið þá höndum.

Skýrsla rannsóknarnefndar Evrópuráðsins var kynnt fyrr í mánuðinum og er afrakstur sjö mánaða rannsókna en í nóvember komust ásakanir um fangaflug í hámæli. Í skýrslunni segir að fjórtán Evrópuríki, þar á meðal Bretland, Spánn, Þýskaland, Kýpur og Tyrkland, hafi aðstoðað við leynilega fangaflutninga. Þá segir að vísbendingar séu um að föngum hafi verið haldið í leynifangelsum í Póllandi og Rúmeníu. Því hafa yfirvöld þar neitað.

Samkvæmt starfsvenjum CIA eru fangar færðir til þriðja lands til yfirheyrslu. Bandarísk stjórnvöld hafa viðurkennt að meintir hryðjuverkamenn hafi verið sóttir en neitar því að þeir séu fluttir til landa þar sem þeir séu pyntaðir.

Þeir sem gagnrýnt hafa skýrslu nefndarinnar segja ekkert nýtt þar að finna og sönnungargögnin séu ekki nægilega afgerandi þannig að hægt væri að flytja málið fyrir dómstólum.

Svissneski þingmaðurinn Dick Marty, sem fer fyrir nefndinni, sagði í morgun að ráðamenn margra landa myndu reyna hvað þeir gætu til að gera skýrsluna tortryggilega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×