Erlent

Geimskotið gekk vel

MYND/AP

Geimferjunni Discovery var skotið á loft frá Canaveral-höfða á Flórída á sjöunda tímanum í kvöld. Geimskotið fór að óskum og er ferjan væntanleg aftur til jarðar þann sextánda þessa mánaðar. Geimskotið í dag er það fyrsta á þessu ári og aðeins í annað skipti sem geimferju er skotið á loft frá því Columbia-geimflaugin fórst fyrir þremur árum með sjö innanborðs.

Fresta þurfti skoti Discovery tvívegis um helgina vegna veðurs og í raun var óvíst hvort hægt yrði að skjóta geimflauginni á loft í dag þegar sprunga fannst í einangrun á ytri eldsneytistanki geimflaugarinnar í gær. Þá var óttast að geimskotinu yrði enn slegið á frest. Sérfræðingar hjá bandarískju geimferðastofnuninni, NASA, komust hins vegar að þeirri niðurstöðu að þetta skapaði enga hættu og því var gefið leyfi fyrir því að flauginni yrði skotið á loft.

Sjö geimfarar eru um borð, fimm karlmenn og tvær konur. Þau eru að flytja tæp þrettán tonn af búnaði og birgðum til alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Einn geimfaranna verður þar eftir.

Auk þessa munu geimfararnir um borð í Discovery gera prófanir á öryggiskerfi sem tekið var í notkun eftir að Columbia fórst.

Áætlað er að Discovery komi aftur til jarðar þaðan sem henni var skotið þann sextánda júlí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×