Erlent

Íslenskir flugvirkjar í Beirút þurftu að flytja sig

MYND/AP

Ísrelar réðust í morgun öðru sinni á alþjóðaflugvöllinn í Beirút. Aukin harka hefur færst í hernaðaraðgerðir þeirra í suðurhluta Líbanons. Þrír íslenskir flugvirkjar, sem eru á vegum Atlanta í Beirút, færðu sig í morgun á hótel lengra frá flugvellinum af ótta við árásirnar.

Ísraelar héldu áfram hörðum árásum á suðurhluta Líbanon í nótt og morgun. Þeir létu sprengjum rigna yfir Beirút þar sem talið er að skæruliðar Hizbollah-samtakanna hafist við. Átökin hófust í fyrradag eftir að skæruliðar Hizbollah tóku í gíslingu tvo ísraelska hermenn, á landamærum Ísraels og Líbanon. Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, skipaði í gær her sínum að herða árásir á Líbanon. Ísraelsmenn hafa nú náð að miklu leyti að einangra Líbanon frá umheiminum. Alþjóðaflugvöllurinn í Beirút er lokaður, öllum höfnum landsins hefur verið lokað og Ísraelsmenn hafa sprengt upp hluta af vegakerfi landsins.

Airbus-þota í eigu flugfélagsins Atlanta er í einu af flugskýlum Beirút flugvallarins og fylgja þrír íslenskir flugvirkjar flugvélinni. Þeir dvöldu í nótt á hóteli nálægt flugvellinum. Már Þórarinsson er einn þeirra og segir hann þá hafa heyrt í sprengingum í nótt og að lætin hafi verið mikil.

Már segir að þeir hafi ekki talið sér vært lengur á hótelinu heldur ákveðið að færa sig lengra frá flugvellinum enda hafi þeim verið ráðlegt að gera það.

Utanríkisráðuneytið biður Íslendinga og aðra ferðamenn sem þurfa að leggja leið sína til Ísraels, Líbanons og sjálfsstjórnarsvæða Palestínumanna um að sýna fyllstu varkárni. Ráðuneytið segir mörg ríki hafa gefið út sérstakar viðvaranir til þegna sinna vegna ferðalaga til þessara svæða og munu starfsmenn þess fylgjast grannt með gangi mála og gefa út frekari upplýsingar ef ástæða þykir til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×