Erlent

Öryggisráð Sþ á neyðarfundi

Líbanskur hermaður við rúst brúar sem eyðilögð var í loftárásum nærri bænum Damour í Suður-Líbanon í gær.
Líbanskur hermaður við rúst brúar sem eyðilögð var í loftárásum nærri bænum Damour í Suður-Líbanon í gær. MYND/AP
Ísraelsmenn hafa gert harðar árásir á Beirút, höfuðborg Líbanon, í dag. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman á neyðarfundi í dag vegna ástandsins. Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa fordæmt árásirnar.

Átökin hófust í fyrradag eftir að meðlimir Hizbollah-skæruliðasamtakanna tóku í gíslingu tvo ísraelska hermenn, á landamærum Ísraels og Líbanon. Um tugur mannna hefur fallið í árásum Ísraelsher á skotmörk í Beirút í dag. Að minnsta kosti átta eru sagðir hafa látist þegar ísraelskar herþotur gerðu loftárásir á mannvirki þar sem meðlimir Hizbolla eru taldir hafast við á. Að sögn Reuters-fréttastofunnar hafa Ísraelsmenn þó einnig gert árásir þar sem híbýli óbreyttra borgara er að finna en þó hafa engar fregnir borist af mannfalli í þeim árásum. Þá hafa Ísraelar sprengt byggingu sem hýsti útvarpsstöð í eigu Hizbolla-samtakanna og brautir sem notaðar eru fyrir eldflaugar á Beirút-flugvelli.

Airbus-þota í eigu flugfélagsins Atlanta er í einu af flugskýlum flugvallarins þar sem hún var í viðhaldi. Þrír íslenskir flugvirkjar fylgja vélinni en þeir dvöldu í nótt á hóteli nálægt flugvellinum.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman á neyðarfundi í New York í dag vegna ástandsins. Engin niðurstaða um hugsanlegar aðgerðir virðist þó hafa fengist á fundinum. Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa fordæmt árásir Ísraelsmanna og Sýrland, nágrannaríki Ísraelsk óskaði eftir því síðdegis að alþjóðasamfélagið kæmi að friðarumleitunum í heimshlutanum.

Utanríkisráðuneytið biður Íslendinga og aðra ferðamenn sem þurfa að leggja leið sína til Ísraels, Líbanons eða sjálfsstjórnarsvæða Palestínumanna um að sýna fyllstu varkárni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×