Erlent

Liðsflutningar til landamæranna halda áfram

Zrariyeh í Líbanon
Zrariyeh í Líbanon MYND/AP

Liðsflutningar Ísraela til líbönsku landamæranna halda áfram en ekki er þó gert ráð fyrir allsherjarinnrás í Líbanon að svo stöddu. Bandaríkjamenn hafa hraðað vopnasendingum til Ísraels undanfarna daga.

Ellefti dagur átakanna á milli Ísraela og skæruliða Hizbollah rann upp í morgun en ófriðurinn hefur nú valdið dauða 345 manns, flestra óbreyttra borgarara. Hundruð þúsunda Líbana eru nú á flótta frá suðurhluta landsins til norðursins og virðist algert neyðarástand ríkja á meðal almennings.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem heldur til Mið-Austurlanda í upphafi næstu viku, sagði á blaðamannafundi í gær að hún myndi ekki beita sér fyrir vopnahléi að svo stöddu þar sem það skilaði engum árangri fyrr en búið væri að uppræta rót átakanna, sem að hennar mati eru Hizbollah-samtökin, og stuðningur Írana og Sýrlendinga við þau. Í þessu sambandi má geta að sendingu á fjarstýrðum sprengjum frá Bandaríkjunum var hraðað til Ísraels í vikunni, en frá þessu var greint í dagblaðinu New York Times.

Ísraelsher hefur safnað miklu liði við líbönsku landamærin en yfirmaður hersins sagði í morgun að allsherjarinnrás væri ekki á döfinni að sinni. Í staðinn ræðst landherlið inn á ákveðnum stöðum í takmarkaðan tíma.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varaði mjög við landhernaði Ísraela í samtali við CNN í morgun og sagði slíkt magna átökin enn. Embættismenn í líbönsku ríkisstjórninni hafa sagt að ráðist Ísraelar inn yrði líbanska hernum teflt fram gegn þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×