Innlent

Endurskoðun á reglum um eldsneytisflutninga í gangi

Í Ljósavatnsskarði í fyrradag
Í Ljósavatnsskarði í fyrradag MYND/Ingólfur Sigfússon

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur falið Umferðarstofu að skoða möguleika á breytingum á fyrirkomulagi eldsneytisflutninga um Hvalfjarðargöng. Hann gerir ráð fyrir að einnig verði farið í almenna endurskoðun á eldsneytisflutningum um þjóðvegi landsins.

Umferðaröryggisdeild Umferðarstofu er nú að skoða hvort eigi að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi eldsneytisflutninga um Hvalfjarðargöng. Sú vinna er unnin að beiðni Samgönguráðuneytisins. Hvort og hvernig eldsneytisflutningar um göngin verða takmarkaðir verður ákveðið í kjölfar niðurstöðu sérfræðinganna.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir eldsneytisflutninga í örum vexti vegna aukinna umsvifa í samfélaginu. Þannig þurfi reglurnar að vera í sífelldri endurskoðun. Sturla gerir ráð fyrir að í framhaldi vinnu Umferðarstofu varðandi Hvalfjarðargöngin verði farið í reglur um eldsneytisflutning um þjóðvegi landsins almennt. Sérstaklega verði slysið í Ljósavatnsskarði rannsakað og reynt að læra af því. Skoða þurfi vegakerfið, reglur um ökutæki og gæðastjórnun fyrirtækja. Sturla ítrekar þó að allar breytingar á fyrirkomulagi eldsneytisflutninga þurfi að gera í góðu samstarfi við flutningafyrirtæki.

Komið hefur fram að ökuriti flutningabílsins sem lenti í slysinu í Ljósavatnsskarði sýndi að hann var á 90 km hraða stuttu fyrir slysið, eða tíu kílómetrum yfir hámarkshraða slíkra ökutæækja. Samkvæmt Lögreglunni á Húsavík er þó ómögulegt að segja til um hraða flutningabílsins á þeim tíma er slysið varð. Þau tæki og tól sem lögreglan hefur yfir að ráða gera það ekki kleift. Til stendur að taka skýrslu af ökumanninum en hann verður útskrifaður af Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×