Innlent

Samgönguráðherra mun skoða nýja skýrslu um jarðgöng til Eyja

Herjólfur í Vestmannaeyjum
Herjólfur í Vestmannaeyjum MYND/Haraldur Jónasson

Samgönguráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna nýrrar skýrslu um jarðgöng til Vestmannaeyja sem unnin var fyrir Ægisdyr, félag áhugamanna um jarðgöng milli lands og Eyja, og var birt í gær. Samgönguráðuneytið vill taka fram að unnið sé að framtíðarlausnum í samgöngumálum Vestmannaeyja o skýrsla Ægisdyra verði skoðuð.

Félagsmenn Ægisdyra fengu ráðgjafarfyrirtækið Multiconsult til að vinna fyrir sig skýrslu um möguleika og kostnað við hugsanleg jarðgöng milli lands og Eyja. Skýrslan metur kostnað við jarðgöngin á rúmlega átján milljarða auk rannsóknakostnaðar. Kostnaðarmat þessarar skýrslu er mun lægra en nefndar samgönguráðuneytisins.

Árni Johnsen og Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Ægisdyra, höfðu hörð orð um vinnubrögð samgönguráðuneytisins þegar skýrslan var kynnt í gær. Árni sagði Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra frekar eiga heima í sauðskinnsskóm í rollugötum en í ráðuneytinu. Ingi lýsti yfir vonbrigðum sínum með niðurstöðu nefndarinnar sem hann átti sæti í og sagði samgönguráðherra hafa hengt Eyjamenn í snöruna með því að komast að niðurstöðu og segja þá samþykka henni.

Niðurstaða nefndar samgönguráðuneytisins var að ákjósanlegasta leiðin til að bæta samgöngur við Eyjar væri gerð hafnar í Bakkafjöru fyrir ferju. Starfshópur hefur þegar tekið til starfa við undirbúning hafnargerðar og mun sú vinna halda áfram þrátt fyrir skoðun skýrslu Ægisdyra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×