Innlent

Methagnaður viðskiptabankanna

Afkomukynning Glitnis fyrir fyrsta ársfjórðung að Kirkjusandi
Afkomukynning Glitnis fyrir fyrsta ársfjórðung að Kirkjusandi MYND/Gunnar V. Andrésson

Methagnaður er á rekstri viðskiptabankanna á þessu ári, en fyrstu sex mánuði ársins nam hagnaðurinn rúmlega 72 milljörðum króna. Glitnir hefur aldrei skilað meiri hagnaði og hagnaður KB banka og Landsbanka er meiri en á sama tíma í fyrra.

Glitnir banki hf. kynnti niðurstöður uppgjörs bankans fyrir annan ársfjórðung 2006 í dag. Glitnir skilaði methagnaði á öðrum ársfjórðungi, eða 11 milljörðum króna eftir skatta. Hagnaður bankans á fyrstu sex mánuðum ársins er því rúmlega 20 milljarðar króna. Hagnaður var tæplega ellefu milljarðar á sama tímabili í fyrra.

Kaupþing banki hf. skilaði hluthöfum sínum 31,8 milljarða króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins 2006. Hagnaður á sama tíma í fyrra var um 25 milljarðar króna. Landsbanki Íslands hf. skilaði 20,4 milljarða króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er rúmlega níu milljörðum meira en hagnaður á sama tímabili í fyrra.

Samtals er hagnaður bankanna þriggja rúmlega 72 milljarðar króna, eða 23 milljörðum meiri en á sama tímabili í fyrra.

Allir hagnast bankarnir verulega á starfsemi sinni erlendis, mun meira en í fyrra. Tekjur bankanna af vöxtum voru mun meiri í ár en á fyrri hluta árs 2005. Vaxtatekjur jukust um rúm áttatíu prósent milli ára hjá KB banka og tvöfölduðust hjá Glitni. Eignir bankanna jukust einnig verulega vegna veikingar krónunnar og verðbólguáhrifa.

Bankarnir finna því fyrir verðbólgunni á jákvæðari hátt en margir viðskiptavina þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×