Viðskipti innlent

Aukið tap hjá CVC

Fjárfestingarfélagið CVC tapaði tæpum 10,4 milljónum bandaríkjadala eða tæplega 729 milljónum íslenskra króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma fyrir ári skilaði félagið tæplega 4,9 milljóna dala tapi eða 342,5 milljónum króna.

Rekstrartekjur námu 14 milljónum dala eða tæpum 989 milljónum króna sem er rúmum 5,7 milljónum dölum meira en fyrir ári. Rekstrartekjur voru neikvæðar um 23 milljónir dala en þær voru neikvæðar um 13,6 milljónir dala á sama tíma á síðasta ári.

CVC á erlend dótturfélög sem stofnuð voru til að kaupa og reka Hibernia Atlantic sæstrenginn á milli Evrópu og N-Ameríku ásamt lendingarstöðvum í fjórum löndum auk þess sem félagið hefur fjárfest í fjarskiptafyrirtæki á Írlandi, Magnet Networks, sem sérhæfir sig í uppbyggingu á samskiptakerfi og efnisveitu um ljósleiðara.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að Hibernia Atlantic hafi fjárfest í aukinni afkastagetu sæstrengsins auk þess sem þjónustusvæði þess hafi verið stækkað verulega með tengingum frá Southport til London á Englandi sem og með tengingum frá Boston svæðinu til New York og Albany í Bandaríkjunum og þaðan til Montreal og Halifax í Kanada. Hafi þetta gert Hibernia kleift að rúmlega tvöfalda sölutekjur á milli ára.

Þá er gert ráð fyrir að sameinað kerfi gefi tækifæri til vaxtar á fyrirtækjamarkaði.

Á einstaklingsmarkaði hefur félagið náð auknum viðskiptum í gegnum ljósleiðara ásamt því að geta boðið upp á ADSL2+ tengingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×