Viðskipti innlent

Tap hjá Landsvirkjun

Höfuðstöðvar Landsvirkjunar.
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar.

Landsvirkjun skilaði tæplega 6,5 milljarða króna taprekstri á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 2 milljörðum króna. Tap fyrir skatta nam tæpum 23 milljörðum króna sem er 25 milljarða króna verri afkoma en á sama tíma fyrir ári. Landsvirkjun greiddi í fyrsta skipti skatt af starfsemi sinni á árinu en tapið skýrist af veikingu krónunnar.

Í tilkynningu frá Kauphöll Íslands kemur fram að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) hafi numið 4,65 milljörðum króna en handbært fé frá rekstri tæpum 5,6 milljörðum króna.

Þá segir að helstu nýframkvæmdir á fyrri helmingi ársins hafi tengst Kárahnjúkavirkjun. Í lok júní námu heildareignir fyrirtækisins 219,4 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfall 23,3 prósent en nam 31,47 prósentum fyrir ári.

Landsvirkjun hefur verið undanþegin tekjuskatti en í samræmi við lög nr. 50 frá því í fyrra varð fyrirtækið tekjuskattsskylt frá og með 1. janúar á þessu ári.

Í árshlutareikningnum er reiknuð skattinneign metin á 16,1 milljarð króna.

Stór hluti langtímaskulda Landsvirkjunar er í erlendri mynt en gengistap tímabilsins vegna langtímalána í erlendri mynt nam 24,9 milljörðum króna, að því er fram kemur í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×