Viðskipti innlent

Minni hagnaður hjá Milestone

Fjárfestingarfélagið Milestone ehf. hagnaðist um 1,9 milljarða krónur á fyrri helmingi ársins. Á sama tíma fyrir ári nam hagnaðurinn hins vegar tæpum 4,1 milljarði króna. Í uppgjöri félagsins kemur fram að stór hluti af eignasafni Milestone samanstandi af félögum sem skráð eru á markað i og mótast afkoman af almennum markaðsaðstæðum.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að starfsemi Milestone á tímabilinu hafi markast af viðamiklum fjárfestingum, rekstri dótturfélaga og aðkomu að stjórnun hlutdeildarfélaga. Að sama skapi hafa breytingar á gengi íslensku krónunnar haft áhrif á rekstur og efnahag félagsins.

Milestone keypti 33,4 prósenta hlut Glitnis í tryggingafélaginu Sjóvá á árinu og ræður þar með öllu hlutafé í félaginu. Þá keypti það öll hlutabréf í L&H eignarhaldsfélagi í lok júní, sem meðal annars rekur lyfjakeðjuna Lyf & heilsu.

Rekstrartekjur Milestone námu rúmum 4,4 milljörðum króna á tímabilinu og voru rekstrargjöld neikvæð um rúma 5,2 milljarða krónur.

Heildareignir Milestone námu tæpum 115,5 milljörðum króna við lok tímabilsins en þær námu tæpum 44,5 milljörðum króna á sama tíma fyrir ári.

Eigið fé nam rúmum 24 milljörðum króna og er það talsverð aukning á milli ára en á sama tíma fyrir ári nam eigið fé rúmum 14,6 milljörðum króna.

Horfur í rekstri félagsins á síðari hluta ársins eru góðar. Rekstur dótturfélaga er stöðugur og hagræðingarverkefni ganga samkvæmt áætlun, að því er fram kemur í uppgjöri Milestone. Þá segir að jákvæð þróun hafi verið á helstu mörkuðum og eignasafn Milestone hafi nú þegar skilað góðri arðsemi frá miðju ári. Þá hafi styrking íslensku krónunnar þegar haft jákvæð áhrif á rekstur og efnahag samstæðunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×