Körfubolti

Grikkir lögðu Bandaríkjamenn

Grikkir dönsuðu stríðsdans á vellinum eftir sigurinn á Bandaríkjamönnum, sem flestir gengu beint til búningsherbergja í stað þess að óska andstæðingum sínum til hamingju með sætið í úrslitunum
Grikkir dönsuðu stríðsdans á vellinum eftir sigurinn á Bandaríkjamönnum, sem flestir gengu beint til búningsherbergja í stað þess að óska andstæðingum sínum til hamingju með sætið í úrslitunum NordicPhotos/GettyImages

Evrópumeistarar Grikkja gerðu sér lítið fyrir og lögðu Bandaríkjamenn 101-95 á HM í körfubolta sem fram fer í Japan og tryggðu sér þar með sæti í úrslitaleik mótsins á sunnudag. Bandaríkjamenn áttu ekkert svar við einföldum en árangursríkum sóknarleik gríska liðsins, sem nýtti 63% skota sinna í leiknum og því verða Bandaríkjamenn í besta falli að sætta sig við bronsverðlaun á mótinu líkt og á Ólympíuleikunum fyrir tveimur árum.

Carmelo Anthony var stigahæstur í liði Bandaríkjanna með 27 stig, Dwyane Wade skoraði 19 stig og LeBron James skoraði 17. Bandaríkjamenn hittu aðeins úr 32% þriggja stiga skota sinna og 59% vítaskota sinna.

Bandaríska liðið hafði 12 stiga forstu í öðrum leikhluta, en þá tóku Evrópumeistararnir góða rispu og komust 14 stigum yfir í þriðja leikhluta. Bandaríkjamenn náðu mest að minnka muninn í 95-91 þegar 30 sekúndur voru eftir af leiknum, en lengra komust þeir ekki. Þetta er þriðja stórmótið í röð sem liðið nær ekki að vinna síðan það vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum um aldamótin - og enn ein vonbrigðin fyrir bandaríska liðið.

Vassilis Sanoulis, sem er á leið til liðs við Houston Rockets í NBA, skoraði 22 stig fyrir Grikki, Mihalis Kakiouzis skoraði 15 stig og Sofoklis Schortsiantis, sem kallaður er "Litli-Shaq", skoraði 14 stig.

"Góðir leikmenn vinna stóru leikina. Við spiluðum mjög vel í dag," sagði bakvörðurinn Thaodoros Papaloukas í liði Grikkja, sem var valinn verðmætasti leikmaður Evrópumótsins og var með 12 stoðsendingar í leiknum í dag..

"Strákarnir eru í rusli yfir þessu tapi og sem betur fer fá þeir strax leik á morgun til að rétta úr kútnum, í stað þess að þurfa að bíða fram á sunnudag," sagði Jerry Colangelo, framkvæmdastjóri bandaríska liðsins. "Við komum hingað til að ná í gullið, en nú verðum við bara að þjappa okkur saman og gera okkur klára fyrir næsta verkefni."

"Körfubolti snýst um annað og meira en að rekja boltann og skjóta," sagði Panagiotis Yannakis, þjálfari Grikkja, sem fékk sérstakt hamingjuóskasímtal frá forsætisráðherranum Costas Karamanlis eftir leikinn. En þjálfarinn var þar augljóslega að senda Bandaríkjamönnunum litla pillu með orðum sínum.

Grikkir mæta því annað hvort Argentínu eða Spáni í úrslitaleik mótsins á sunnudag, en Bandaríkjamenn mæta tapliðinu úr þeim leik í viðureigninni um bronsið á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×