Viðskipti innlent

Dagsbrún skipt upp

Stjórn Dagsbrúnar hf. samþykkti á fundi sínum í dag að leggja til við hluthafafund að Dagsbrún verði skipt upp í tvö rekstrarfélög sem bæði verði skráð í Kauphöll Íslands. Félögin verði annars vegar fjölmiðlafélag, 365 hf. og hins vegar fjarskipta- og upplýsingatæknifélag, Teymi hf.

Í tilkynningu frá Dagsbrún til Kauphallar Íslands segir að stofnað verði sérstakt félag utan um eignir sem ekki falla að kjarnastarfsemi félaganna tveggja og verði þær í minnihlutaeigu hvors um sig en með aðkomu þriðja aðila. Jafnframt sé stefnt að sölu fasteigna Dagsbrúnar bæði á Íslandi og í Bretlandi.

Áætlað er að þessar aðgerðir lækki skuldsetningu félaganna tveggja um 13-14 milljarða króna.

Þá segir að gangi tillögurnar eftir muni fjölmiðlafélagið verða rekið undir kennitölu Dagsbrúnar en nýtt félag verði stofnað um fjarskipta- og upplýsingatæknihlutann. Markmiðið með skiptingunni er að skerpa áherslur í rekstri dótturfélaga Dagsbrúnar hf., einfalda fjármagnsskipan þeirra og að gefa hluthöfum Dagsbrúnar hf. kost á að verða beinir aðilar að fjarskipta- og upplýsingatækni félaginu Teymi hf.

Hluthafar í Dagsbrún hf. verða jafnframt hluthafar í Teymi hf. og eignast hluti í félaginu í sömu hlutföllum og þeir áttu í Dagsbrún hf. Unnið er að undirbúningi skráningar hlutabréfa Teymi hf. í Kauphöll Íslands og er ráðgert að skráningunni verði lokið fljótlega í kjölfar skiptingar Dagsbrúnar hf.

Ari Edwald verður forstjóri 365 hf. og Árni Pétur Jónsson forstjóri Teymis hf. Viðar Þorkelsson fjármálastjóri Dagsbrúnar verður fjármálastjóri 365 hf.

Viðskipti voru stöðvuð með bréf Dagsbrúnar í Kauphöll Íslands í morgun vegna fyrirhugaðra frétta frá félaginu en nú stendur yfir kynningarfundur Dagsbrúnar fyrir fjárfesta og fjölmiðla vegna málsins í Salnum í Kópavogi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×