Viðskipti innlent

Hrein eign lífeyrissjóðanna minnkar

Glitnir banki.
Glitnir banki.

Hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris nam um 1350 milljörðum króna í lok júlí en það er 8,4 milljarða króna samdráttur á milli mánaðasamkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti í gær.

Í Morgunkorni greiningardeildar Glitnis segir að eignir sjóðanna í erlendum verðbréfum hafi lækkað um 3 prósent milli mánaða. Gengi krónunnar hafi styrkst um 3,8 prósent í júlí og megi skýra lækkun sjóðanna í erlendum eignum að mestu leyti með þeirri lækkun. Flestar erlendar hlutabréfavísitölur hækkuðu lítillega í júlí fyrir utan bandarísku Nasdaq vísitöluna sem lækkaði um 3,7 prósent á tímabilinu.

Þá lækkuðu eignir lífeyrissjóðanna í innlendum hlutabréfum um 1,5 prósent í júlí. Íslensk hlutabréf lækkuðu í verði samkvæmt úrvalsvísitölunni um 3,7 prósent. Sjóðirnir hafa því væntanlega fjárfest í nýjum bréfum á tímabilinu, að mati greiningardeildarinnar. Vænta megi að sá hluti eignasafns sjóðanna hafi hækkað í takt við mikla hækkun í Kauphöllinni í ágúst.

Lán til sjóðfélaga jukust um 1,3 prósent milli mánaða og hafa þau aukist jafnt og þétt frá því í desember í fyrra. Á síðustu 12 mánuðum hafa lán til sjóðfélaga aukist um 16,5 prósent. Þegar litið er yfir árið í heild megi sjá að eignir lífeyrissjóðanna hafa aukist um 11 prósent frá áramótum miðað við 9,3 prósent á sama tíma í fyrra, að sögn greiningardeildar Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×