Innlent

Bensínverð nú það sama og í maí

Olíufélagið ESSO ákvað í dag að lækka verð á eldsneyti umtalsvert. Lítrinn af bensíni lækkar um 4 krónur um land allt og lítrinn af díselolíu lækkar um 2 krónur um land allt. Þessi lækkun byggir á væntingum Olíufélagins Esso um að á næstu vikum verði markaðir tiltölulega stöðugir.

Í tilkynningu frá Hermanni Guðmundssyni forstjóra Olíufélagsins Esso segir að eins og mörgum sé í fersku minni þá hafi verið mjög tíðar verðhækkanir á eldsneyti á tímabilinu mars til júlí á þessu ári. Þessar hækkanir hafi átt rætur að rekja til einhverrar mestu hækkunarhrinu á olíumörkuðum sem sést hafa í seinni tíð. Þessu til viðbótar hafi íslenska krónan veikst á móti bandaríkjadollar um 25%.

Verðhækkanir Olíufélagins ESSO náðu hámarki þ. 17 júlí þegar bæði krónan og olíuverð voru í efstu gildum.

Síðasta hluta júlí mánaðar fór íslenska krónan að styrkjast aftur og þ. 21 júlí lækkaði Esso útsöluverð á bensíni í fyrsta sinn frá febrúar mánuði. Síðan hefur Esso lækkað verð 10 sinnum og er nú svo komið að útsöluverð eru orðin þau sömu og þau voru í maí sl.

"Í ljósi góðrar afkomu félagsins og til að styðja við bakið á tugþúsundum viðskiptavina um land allt, hafa stjórnendur félagsins ákveðið að stíga stórt skref í lækkun á bensínverði. Þetta skref er stigið til að þakka viðskiptavinum okkar hina miklu tryggð sem þeir hafa sýnt okkur í gegnum þetta erfiða tímabil óróa á mörkuðum," segir Hermann Guðmundsson forstjóri Olíufélagsins ESSO.

Ennfremur segir Hermann að Olíufélagið Esso muni hér eftir sem hingað til hafa hagsmuni viðskiptavina sinna að leiðarljósi á sama tíma og rekstur félagsins gengur afar vel. Áfram verði kappkostað þjónustu landsmenn alla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×