Enski boltinn

Sáttur við rauða spjaldið

Mourinho og Benitez sættust í dag
Mourinho og Benitez sættust í dag NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho segist ekki mótmæla rauða spjaldinu sem Michael Ballack fékk að líta í leiknum gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag, en gat þó ekki stillt sig um að senda dómara leiksins smá pillu á blaðamannafundi eftir leikinn.

"Ballack átti skilið að fá rautt fyrir brot sitt, en ég vil taka það fram að þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem hann er rekinn af velli. Það sem ég hef meiri áhyggjur af er að maðurinn sem hann braut á var þegar búinn að vinna sér inn brot sem hefðu átt að kosta hann tvö gul og þar með brottvísun," sagði Mourinho og gagnrýndi Mike Riley dómara - án þess þó að vilja taka of stórt til orða.

"Ef við færum yfir allan leikinn og skoðuðum frammistöðu herra Riley, held ég að við myndum gera út af við hann og því held ég að við verðum að sýna honum smá skilning. Hann er góður dómari og átti ekki sinn besta dag í dag," sagði Mourinho og var feginn að ná að grafa stríðsöxina við Rafa Benitez, stjóra Liverpool. Þeir félagar tókust í hendur fyrir leikinn í fyrsta sinn í langan tíma.

"Ég ber virðingu fyrir Benitez. Hann er einn af þeim bestu og ég tel að hann beri virðingu fyrir mér sömuleiðis. Þegar allt er talið held ég samt að við höfum borið virðingu fyrir hver öðrum alla tíð - og ég er ánægður að við séum komnir yfir þessa vitleysu," sagði Mourinho.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×