Viðskipti innlent

TM semur við norskt tryggingafyrirtæki

Bjørn H. Bakke, framkvæmdastjóri Møretrygd, og Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar TM horfa á Óskar Magnússon, forstjóra TM, undirrita samninginn í Saltfisksetri Íslands í Grindavík.
Bjørn H. Bakke, framkvæmdastjóri Møretrygd, og Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar TM horfa á Óskar Magnússon, forstjóra TM, undirrita samninginn í Saltfisksetri Íslands í Grindavík.

Tryggingamiðstöðin hefur gert samning við norska tryggingafyrirtækið Møretrygd um vátryggingasamstarf á sviði frum- og endurtrygginga. Samningurinn, sem er nýmæli í íslenskum tryggingaviðskiptum, nær til vátrygginga vegna hátt á áttunda hundrað báta og skipa og er því um umtalsverð viðskipti að ræða. Hann er til þriggja ára.

Í tilkynningu frá Tryggingamiðstöðinni segir að samningurinn við Møretrygd sé samstarfsverkefni TM og Nemi og markar ákveðin tímamót sem fyrsti samningur sem félögin koma saman að. Ráðgert sé að félögin vinni áfram saman að fleiri verkefnum á erlendum vettvangi en eftir að TM eignaðist Nemi er orðið auðveldara fyrir félagið að bjóða fyrirtækjum á Norðurlöndum þjónustu.

Þá segir að bátaábyrgðarfélagið Møretrygd er í Álasundi á vesturströnd Noregs, fyrir norðan Bergen. Félagið er stórt á sínu sviði á norskan mælikvarða og hafi sterka stöðu á sínu markaðssvæði. Þá er Møretrygd gagnkvæmt tryggingafélag á sviði skipatrygginga en það þýðir að viðskiptavinirnir eru meðlimir í félaginu og eiga það og stjórna því. Møretrygd tryggir um það bil 760 fley fyrir vátryggingafjárhæðir sem nema tæpum 70 milljörðum.

Árleg iðgjöld nema tæpum 600 milljónum og eigið fé er rúmlega 1,7 milljarðar króna. Møretrygd, sem varð til við röð samruna bátaábyrgðarfélaga gegnum árin, er meðal elstu tryggingafélaga í Noregi. Tvö elstu félögin sem að því standa voru stofnuð á síðustu áratugum nítjándu aldar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×