Fótbolti

Liverpool slapp með skrekkinn

Hinn þokkafulli Peter Crouch fagnar hér glæsilegu marki sínu í kvöld eins og honum einum er lagið
Hinn þokkafulli Peter Crouch fagnar hér glæsilegu marki sínu í kvöld eins og honum einum er lagið NordicPhotos/GettyImages

Liverpool vann í kvöld nauman 3-2 sigur á tyrkneska liðinu Galatasaray í Meistaradeild Evrópu í leik sem sýndur var beint á Sýn. Peter Crouch skoraði tvö mörk og Luis Garcia eitt og komu enska liðinu í 3-0, en Tyrkirnir höfðu alls ekki sagt sitt síðasta og skoruðu tvö mörk á sex mínútum um miðjan síðari hálfleikinn. Lengra komust þeir þó ekki og enska liðið slapp með skrekkinn.

Peter Crouch skoraði klárlega mark leiksins þegar hann skoraði þriðja mark Liverpool og annað mark sitt með frábærri bakfallsspyrnu. Tyrkirnir fengu líka sinn færi og hefðu með smá heppni geta stolið stigi á Anfield.

Barcelona náði að tryggja sér 1-1 jafntefli gegn Werder Bremen með marki Leo Messi skömmu fyrir leikslok, en áður hafði Carles Puyol komið þýska liðinu yfir með sjálfsmarki. Eiður Smári kom inn sem varamaður hjá Barca á 55. mínútu fyrir meiddan Samuel Eto´o - en náði aldrei að setja mark sitt á leikinn.

Chelsea burstaði Levski Sofia í Búlgaríu 3-1 þar sem Didier Drogba skoraði þrennu fyrir Englandsmeistarana.

Mikil dramatík var í leik Inter Milan og Bayern Munchen í Mílanó, en þar hafði þýska liðið 2-0 sigur með mörkum frá Podolski og Pizzarro seint í leiknum eftir að þeir Zlatan Ibrahimovic og Fabio Grosso voru reknir af leikvelli hjá Inter.

Valencia lagði Roma 2-1 með mörkum frá Angulo og Villa, en afmælisbarnið Francesco Totti skoraði mark Rómverja. PSV vann góðan 1-0 útisigur á Bordeaux í Frakklandi með marki frá Vayrynen og þá gerðu Shaktar og Olympiakos 2-2 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×