Viðskipti innlent

Vöruskipti óhagstæð um 11,6 milljarða

Vöruskipti voru óhagstæð um 11,6 milljarða krónur í ágústmánuði. Þetta er 3,2 milljörðum krónum minna en á sama tíma fyrir ári, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Á fyrstu átta mánuðum ársins voru vöruskipti hins vegar neikvæð um 63,4 milljarða krónur sem er 31,2 milljörðum krónum meira en á fyrstu átta mánuðum síðasta árs.

Vörur voru fluttar út fyrir 16,6 milljarða krónur í síðasta mánuði en inn fyrir 28,2 milljarða krónur.

Á fyrstu átta mánuðum ársins voru vörur fluttar út fyrir 150,9 milljarða krónur en inn fyrir 245,5 milljarða.

Verðmæti útflutnings á fyrstu átta mánuðum ársins nam 8,3 milljörðum króna eða 5,9 prósentum meira á föstu gengi en á sama tíma í fyrra. Sjávarútvegur var 55,1 prósent alls útflutnings og jókst verðmæti þeirra um 1,8 prósent á milli ára. Aukning varð í útflutningi á ferskum fiski, frystum flökum og söltum en útflutningur á fiskimjöli og frystum rækjum dróst saman. Þá námu iðnaðarvörur 38 prósentum alls útflutnings og jókst verðmæti þeirra um 19,4 prósent á milli ára.

Verðmæti innflutnings nam 39,5 milljörðum króna á sama tímabili en það er 19,2 prósentum meira á föstu gengi en árið áður. Rúman helming 21,1 milljarð króna, má rekja til aukins innflutnings á fjárfestingarvöru sem jókst um 45,8 prósent á milli ára.

Þá jókst innflutningur á hrá- og rekstrarvörum um 33,7 prósent eða um 16,7 milljarða krónur. Verðhækkun á eldneyti og smurolíu leiddi til 16,7 prósenta aukningar eða um 3 milljarða króna hækkunar á milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×