Fótbolti

Inter, eruð þið geðveikir?

Mark van Bommel og Marco Materazzi eigast hér við í leik Inter og Bayern í gær
Mark van Bommel og Marco Materazzi eigast hér við í leik Inter og Bayern í gær NordicPhotos/GettyImages

Ítölsku blöðin vönduðu stjörnum prýddu liði Inter Milan ekki kveðjurnar á síðum sínum í dag eftir að liðið tapaði 2-0 fyrir Bayern Munchen á heimavelli í Meistaradeildinni. Þeim Zlatan Ibrahimovic og Fabio Grosso var báðum vikið af leikvelli í gærkvöldi og það nýtti þýska liðið sér vel, en Inter hefur ekki fengið eitt einasta stig úr fyrstu tveimur leikjum sínum í B-riðli.

"Inter, eruð þið geðveikir," sagði á forsíðu La Gazzetta dello Sport í dag og í umfjöllun um leikinn var einfaldlega spurt hvað væri að ítalska stórliðinu. Argentínski framherjinn Hernan Crespo vildi ekki meina að möguleikar Inter væru úr sögunni. "Það er enn tími til að snúa þessu við og ef við fáum níu stig út úr næstu þremur leikjum getum við farið fullir sjálfstraust í síðari leikinn við Bayern," sagði Crespo.

Ekki er hægt að segja að sagan meti möguleika Inter svo mikla, því aðeins fjögur lið í sögu meistaradeildarinnar hafa komist upp úr riðli sínum eftir tap í fyrstu tveimur leikjum sínum. Þetta voru Dynamo Kiev um aldamótin, Newcastle og Bayer Leverkusen árið 2002-2003 og Werder Bremen á síðustu leiktíð. Ekkert þessara liða náði þó lengra en í 16-liða úrslitin í öll skiptin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×