Viðskipti innlent

Afgangur ríkissjóðs nemur 36 milljörðum á hálfu ári

Peningaveski
Peningaveski

Ríkissjóður skilar 36 milljarða króna afgangi á fyrri helmingi ársins meðan halli sveitarfélaganna nemur 2,2 milljörðum króna, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.

Heildartekjur hins opinbera, ríkissjóðs, almannatrygginga og sveitarfélaga, eru í heild eru áætlaðar 131,2 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Tekjujöfnuður hins opinbera er áætlaður 14,7 milljarðar króna eða rúmlega 11 prósent af tekjum þess.

Sem hlutfall af landsframleiðslu ársins er tekjuafgangurinn því áætlaður um 1,3 prósent hjá hinu opinbera í heild. Í sama fjórðungi fyrra árs var tekjujöfnuðurinn jákvæður um 8,7 milljarða króna eða 0,9 prósent af landsframleiðslu ársins.

"Á fyrri helmingi ársins hafa tekjur hins opinbera aukist um 11,7 prósent frá samsvarandi tímabili fyrra árs á sama tíma og útgjöldin hafa vaxið um rúmlega 6 prósent. Tekjuafkoma hins opinbera á þjóðhagsreikningagrunni er því áætluð um 35 milljarðar króna eða sem svarar til rúmlega 3 prósenta af landsframleiðslu ársins," segir Hagstofan.

Samkvæmt áætlunum er talið að fjárfesting hins opinbera hafi verið ríflega 15 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins samanborið við tæplega 13 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.

Tölurnar benda til þess að heildartekjur ríkissjóðs hafi orðið ríflega 98 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi á þjóðhagsreikningagrunni og heildarútgjöldin um 81 milljarður króna.

"Tekjujöfnuður ríkissjóðs er því áætlaður jákvæður um 17,5 milljarða króna á þeim ársfjórðungi. Sé fyrri helmingur ársins skoðaður benda bráðabirgðatölur til þess að heildartekjur ríkissjóðs hafi aukist um 11,7 prósent frá sama tímabili fyrra árs og útgjöldin um 3,6 prósent."

Tekjuafgangur ríkissjóðs er því um 36 milljarðar króna á fyrri hluta ársins eða sem nemur 3,2 prósentum af landsframleiðslu og um 18,4 prósentum af tekjum hans. Útgjöld til fjárfestinga eru í lágmarki miðað við fyrri ár og mælast einungis 5,4 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins.

"Áætlaðar heildartekjur sveitarfélaganna á öðrum ársfjórðungi 2006 eru 34,7 milljarðar króna og áætluð heildarútgjöld 37,6 milljarðar króna. Tekjuhalli þess ársfjórðungs er því áætlaður um 3 milljarðar króna eða sem nemur 0,3 prósentum af landsframleiðslu. Þetta er heldur lakari niðurstaða en á sama tíma í fyrra er tekjuhallinn mældist 2,2 milljarðar króna," segir Hagstofan.

Á fyrri hluta þessa árs hafa heildartekjur sveitarfélaganna vaxið um rúmlega 11 prósent frá sama tímabili síðasta árs og útgjöldin í heild um tæplega 12 prósent. Tekjuhalli fyrri hluta þessa árs er því áætlaður 2,4 milljarðar króna. Samkvæmt þessari áætlun er fjárfesting fyrri hluta ársins talin hafa verið tæplega 10 milljarðar króna samanborið við tæplega 8 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×