Innlent

Fimmtán og hálfur milljarður í tekjuafgang ríkissjóðs

Stöðugleika í efnahagsmálum er spáð í fjárlagafrumvarpi næsta árs og að fimmtán og hálfur milljarður króna verði í tekjuafgang ríkissjóðs. Fjármálaráðherra kynnti frumvarpið á blaðamannafundi á Selfossi og blæs á þær gagnrýnisraddir sem segja að með því vilji hann skapa sér velvild í kjördæminu sem hann hyggst bjóða sig fram í.

Samkvæmt fjármálafrumvarpinu verður tekjuafgangur ríkissjóðs 23 milljörðum meiri en reiknað var með í langtímaáætlun en áður var reiknað með 7 milljarða króna halla á ríkissjóði. Ráðherra útskýrir það reikningsdæmi með viðsnúningi vegna meiri tekna ríkissjóðs vegna aðhalds. Nú verður þó slakað á aðhaldi í ríkisfjármálum sem verið hefur við lýði undanfarin ár og ríkisútgjöld aukin þegar dregur úr stóriðjuframkvæmdum. Helst má sjá aukin útgjöld í samgönguframkvæmdum en þó ekki jafn mikið og áður var ráðgert.

Ríkisstjórnin ætlar sér að láta hálfan milljarð í lækkun lyfjakostnaðar, lækka skatta og útgjöld vegna barnabóta aukast um fjórðung. Framlög til almannatrygginga verða stóraukin með hækkun á lífeyri og lífeyriskerfið verður einfaldað. Hinsvegar er gert ráð fyrir eins prósents hagvexti og ekkert er minnst á fjárútgjöld ríkisstjórnarinnar vegna aðgerða við lækkun á matvælaverði né í fangelsismálum

Fjárlagafrumvarpið var kynnt að þessu sinni á Hótel Selfossi en sumir stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt staðarvalið. Fjármálaráðherra segist ekki getað ímyndað sér að nokkur geti gagnrýnt það að kynningin hafi farið fram á Selfossi. Hann segist ekkert slæmt við að kynna málefni ráðuneytisins úti á landsbyggðinni






Fleiri fréttir

Sjá meira


×