Innlent

Fjögur flugfélög keppa um hylli farþega

Fjögur flugfélög keppa um hylli farþega á milli London og Keflavíkur næsta sumar. Lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur áætlunarflug hingað til lands.

Félagið ætlar að fljúga hingað frá London og Dublin, að því er fram kemur í fréttabréfi Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Ekkert annað flugfélag flýgur á milli Íslands og Dublin, en Icelandair, Brithis Airways, og Iceland Express fljúga á milli London og Íslands þannig að samkeppnin á þeirri leið harðnar enn.

Ryanair er stærsta lággjaldaflugfélag í Evrópu, flytur um 35 milljónir farþega í ár á rúmlega hundrað þotum til 380 áfangastaða í 24 löndum, þannig að hægt verður að fljúga áfram með félaginu, eftir að komið er til Englands. Félagið á hátt í 140 nýjar þotur í pöntun og stefnir að því að tvöfalda farþegafjöldann á skömmum tíma.

Þá hefur íslenska flugfélagið JetX auglýst eftir flugfreyjum og flugþjónum vegna flugs, sem á að hefjast frá Íslandi til nokkurra áfangastaða á meginlandinu eftir áramót, á vegum Heimsferða. Flugmenninrir verða samkvæmt þessu erlendir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×