Innlent

Stofna á sérstakan Byggðasjóð

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. MYND/Vísir

Stofnaður verður sérstakur Byggðasjóður ef nýtt frumvarp um Nýsköpunarmiðstöð fær fram að ganga. Ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvarp iðnaðar- og viðskiparáðherra um stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar. Hún verður til við sameiningu Iðntæknistofnunar, Byggðastofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins. Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, lagði fram frumvarp um málið í vor þegar hún var iðnaðar- og viðskiptaráherra og voru uppi skiptar skoðanir um það.

Helsta breytingin á frumvarpinu sem nú er lagt fram, og því sem lagt var fram í vor, er stofnun nýs Byggðasjóðs. Sjóðurinn á að heyra undir iðnaðarráðherra en Nýsköpunarmiðstöðin sjá um framkvæmd hans. Hlutverk sjóðsins verður svipað hlutverki Byggðastofnunar en sjóðurinn á að efla samkeppnishæfni atvinnulífs og bregðast við sérstökum áföllum á þeim landsvæðum sem heimildir hans takmarkast við.

Byggðasjóður verður stofnaður á grundvelli fjármálastarfsemi Byggðastofnunar og verður honum heimilt að ábyrgjast lán til starfsemi á landsbyggðinni.

Með því að aðskilja Byggðasjóð að hluta frá Nýsköpunarmiðstöðinni er verið að koma til móts við þá gagnrýni sem kom fram á frumvarpið sem lagt var fram í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×