Viðskipti innlent

Og Vodafone heitir Vodafone á Íslandi

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone á Íslandi.
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone á Íslandi. Mynd/GVA

Og fjarskipti ehf. (Og Vodafone), dótturfélag Dagsbrúnar, hefur gert samning við alþjóðlega farsímafélagið Vodafone Group um nánara samstarf og samnýtingu vörumerkis. Og Vodafone mun því hér eftir heita Vodafone á Íslandi og verða vörur og þjónusta fyrirtækisins markaðsett undir vörumerki Vodafone.

Í tilkynningu frá félaginu segir að þetta sé í fyrsta skipti sem samstarfsfyrirtæki Vodafone Group fær leyfi til þess að nota nafn og merki Vodafone án þess að vera í eigu samstæðunnar. Íslendingar í útlöndum og ferðamenn á Íslandi eigi auk þess von á greiðari aðgangi að neti og þjónustu Vodafone og vörunýjungum.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone á Íslandi, segir að viðurkenningin sem fólgin er í samningnum sé bein afleiðing af þeim miklu kröfum sem íslenskir símnotendur geri um þjónustu og tækni.

Þá er haft eftir Mathias Jungemann, framkvæmdastjóra hjá Vodafone Group, að hann sé mjög ánægður með að Og Vodafone sé orðið að Vodafone á Íslandi enda sé markaðurinn hér framsækinn, símnotendur kröfuharðir og vel að sér í tæknimálum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×