Innlent

Bjartar horfur á hlutabréfamarkaði

Glitnir banki
Glitnir banki MYND/HEIÐA

Greiningardeild Glitnis telur nokkuð bjartar horfur á innlendum hlutabréfamarkaði litið til næstu missera.

Grunnrekstur flestra fyrirtækja í Kauphöll Íslands sé með ágætum og megi reikna með að afkoma þeirra verði góð bæði í ár og á næsta ári. Útrás fyrirtækjanna hafi skilað sýnilegum árangri í aukinni landfræðilegri dreifingu í tekjumyndun og eflingu fyrirtækjanna.

Glitnir segir að þrátt fyrir alþjóðavæðingu íslenska hlutabréfamarkaðarins sé framvinda hans enn nokkuð undir hælnum á innlendri efnahagsþróun. Komi það ekki síst til af því að þorri fjárfesta á markaðnum sé innlendur.

Horfur í innlendu efnahagslífi hafi batnað undanfarna mánuði og standi væntingar nú til mjúkrar lendingar hagkerfisins.

Glitnir telur að draga ætti úr þenslumerkjum á næstunni. Þannig ætti verðbólgan að hjaðna. Í því ljósi sjái fyrir endann á hækkun stýrivaxta Seðlabankans sem hafi jákvæð áhrif fyrir hlutabréfamarkaðinn. Gengi krónunnar er nú lægra en í upphafi árs sem Glitnir telur að hafi almennt jákvæð áhrif á rekstur flestra fyrirtækja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×