Enski boltinn

Ívar á von á nýjum samningi

Ívar gæti átt von á launahækkun á næstunni
Ívar gæti átt von á launahækkun á næstunni NordicPhotos/GettyImages

Enska úrvalsdeildarfélagið Reading reiknar með að gera nýja og endurbætta samninga við nokkra af lykilmönnum félagsins í kjölfar þess að liðið vann sér sæti í úrvalsdeildinni og hefur þar slegið í gegn í upphafi leiktíðar. Ívar Ingimarsson er einn þeirra sem Sky segir að gæti átt von á að fá nýjan og betri samning í framtíðinni.

Yfirmaður knattspyrnumála hjá Reading á að hafa ætlað að sjá til hvernig liðinu vegnaði í upphafi leiktíðar og á að hafa lofað Steve Coppell knattspyrnustjóra að taka eitthvað af samningum lykilmanna liðsins í gegn um tíðina til endurskoðunar ef liðið næði sér þokkalega á strik.

Það hefur svo sannarlega gengið eftir. "Við Steve ræddum þetta í sumar og ætluðum að sjá hvernig lífið yrði framan af veru okkar í úrvalsdeildinni. Við gerum okkur grein fyrir því að endurskoða þarf eitthvað af samningum leikmanna og við munum fljótlega fara að huga að því að endurnýja þá," sagði Nick Hammond, framkvæmdastjóri Reading.

Gangi þetta eftir er nær öruggt að íslenski landsliðsmaðurinn Ívar Ingimarsson á von á góðri búbót frá félaginu, enda var hann algjör lykilmaður í frábærum árangri liðsins á síðustu leiktíð, þegar það stormaði í gegn um 1. deildina og tryggði sér sæti í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×