Enski boltinn

Vonsvikinn á viðbrögðum fólks

Paul Robinson hefur verið gerður að blóraböggli í ensku pressunni
Paul Robinson hefur verið gerður að blóraböggli í ensku pressunni NordicPhotos/GettyImages

Paul Robinson, landsliðsmarkvörður Englendinga, segist afar hissa og vonsvikinn yfir því að hafa verið látinn fá það óþvegið fyrir markið slysalega sem hann fékk á sig á móti Króötum á miðvikudag.

"Ég er búinn að skoða þetta atvik margsinnis á myndbandi og þetta var ekkert annað en fáránleg óheppni. Þessu hefur engu að síður verið slegið upp sem mistökum - eins og þetta sé mér að kenna. Mér finnst afar dapurlegt að fólk skuli túlka þetta svona, því ég átti ekki von á því að fá það hrátt í blöðunum eftir þetta atvik," sagði Robinson, en kaldhæðni örlaganna var sú að hann var kosinn maður leiksins eftir að hafa margsinnis varið mjög vel í stórskotahríð Króata.

"Markverðir gera mistök eins og aðrir og ég hef áður gert mistök sem hafa kostað mörk - en ekkert á borð við þetta hefur nokkru sinni komið fyrir mig á ferlinum," sagði Robinson. Nokkrir af fyrrum markvörðum enska landsliðsins hafa síðan komið honum til varnar og kalla atvikið ekkert annað en óskiljanlega óheppni - en enska pressan er ekki á sama máli og veltir sér enn upp úr tapinu og reynir að finna sér blóraböggla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×