Enski boltinn

Ætlar að taka til í liði sínu

Roy Keane er ófeiminn við að láta menn heyra það ef honum líkar ekki frammistaða þeirra á vellinum
Roy Keane er ófeiminn við að láta menn heyra það ef honum líkar ekki frammistaða þeirra á vellinum NordicPhotos/GettyImages

Roy Keane hefur látið í veðri vaka að hann ætli sér að gera enn frekari breytingar á leikmannahópi sínum á næstu dögum, en lið Sunderland hefur aðeins fengið fjögur stig út úr síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni og nálgast nú fallsvæðið.

Keane hefur fékk til sín sex nýja leikmenn þegar hann tók við fyrir tæpum tveimur mánuðum en hefur lánað nokkra menn frá félaginu sem hann telur sig ekki hafa not fyrir. Hann boðar nú frekari breytingar fyrir leikinn gegn Stoke annað kvöld og útilokar ekki að taka meira til í herbúðum liðsins.

"Ég hef gefið mönnum góð tækifæri til að sanna sig síðan ég tók við, en nú er sá grunur sem ég hafði um nokkra menn þegar ég byrjaði að koma í ljós. Ég hef engu að síður leyft mönnum að byrja með hreint borð og þeir hafa ekki staðið sig, svo nú er veislunni lokið hjá þeim," sagði Keane argur. "Nú er ég að verða kominn með mjög góða hugmynd um það hvaða menn eru tilbúnir í verkefnið með mér og hverjir ekki - og byrjunarlið mitt í næstu leikjum mun gefa góða mynd af því," sagði Írinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×