Enski boltinn

Tímamótaleikur hjá Paul Scholes um helgina

Paul Scholes hefur átt frábæran feril hjá Manchester United á þeim 12 árum sem hann hefur leikið með aðalliðinu
Paul Scholes hefur átt frábæran feril hjá Manchester United á þeim 12 árum sem hann hefur leikið með aðalliðinu NordicPhotos/GettyImages

Miðjumaðurinn magnaði Paul Scholes hjá Manchester United kemst í mjög sérstakan hóp manna í sögu Manchester United um helgina þegar liðið tekur á móti Liverpool, en þá verður hann aðeins níundi leikmaðurinn í sögu félagsins til að spila 500 leiki.

Scholes spilaði sinn fyrsta leik fyrir United fyrir 12 árum gegn Port Vale í bikarnum, en hann kemst nú í flokk með þeim Bobby Charlton, Bill Foulkes, Denis Irwin - og félögum sínum Ryan Giggs og Gary Neville - sem hafa spilað yfir 500 leiki fyrir félagið.

Sir Alex Ferguson á allt eins von á því að Scholes haldi áfram að hrella andstæðinga United í nokkur ár í viðbót, en hinn 31 árs gamli leikmaður hefur ítrekað verið beðinn um að taka fram landsliðsskóna á ný - en hefur neitað því og vill eyða frítíma sínum með fjölskyldu sinni.

"Scholes lifir þannig lífi að ég á von á því að hann geti spilað vel í nokkur ár í viðbót. Hann hefur líka dálítið sem maður getur ekki þjálfað upp í leikmanni - en það er frábær tilfinning fyrir leiknum. Hann skynjar mjög vel hvað er í gangi inni á vellinum og hefur gert allar götur síðan hann var 14 ára gamall og ég held að enginn leikmaður sé betri í því en hann," sagði Ferguson.

Scholes hefur alltaf haldið sig frá sviðsljósinu og hefur aldrei verið mikið fyrir að vera mikið í fjölmiðlum líkt og félagar hans á borð við David Beckham. Hann hefur skoraði 131 mark fyrir félagið á þeim 12 árum sem hann hefur leikið með United. Hann er raunar ekki eini leikmaður liðsins sem nær merkum áfanga um helgina, því Wayne Rooney spilar þá sinn 100. leik fyrir United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×