Viðskipti innlent

Spá minni hagnaði hjá Actavis

Höfuðstöðvar Pliva í Zagreb í Króatíu.
Höfuðstöðvar Pliva í Zagreb í Króatíu.

Actavis tilkynnti eftir lokun markaðar á föstudag að ákveðið hefði verið að gjaldfæra að fullu kostnað tengdan yfirtökuferlinu á króatíska lyfjafyrirtækinu Pliva. Greiningardeild Glitnis segir fjárhagsleg áhrif yfirtökuferlisins mun neikvæðari en búist hafði verið við og spáir því að hagnaður Actavis lækki úr 23,2 milljónum evra eða um 2 milljörðum króna í 3,2 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 227 milljóna króna, á þriðja fjórðungi ársins.

Greiningardeildin segir Actavis hafa dregið sig úr yfirtökuferlinu fyrir skömmu því ekki þótti réttlætanlegt að greiða hærra verð fyrir Pliva en Actavis hafði boðið í samkeppni við bandaríska lyfjafyrirtækið. Actavis seldi því Barr allt hlutafé sitt í Pliva á yfirtökuverðinu 820 kúnur á hlut .

Deildin segir ljóst að kostnaður félagsins umfram hagnað af sölu bréfanna í Pliva til Barr nemur 25 milljónum evra, 2,2 milljörðum króna, og leiði það til þess að deildin spáir minni hagnaði á fjórðungnum en áður.

Þá segir greiningardeild Glitnis ennfremur að vonir hafi staðið til að Actavis myndi hagnast verulega á eignarhlut sínum í Pliva eftir því sem að Barr hækkaði tilboðsverð sitt. Yfirtökuferlið var þó sérlega flókið og kostnaðarsamt og höfðu stjórnendur Actavis bent sérstaklega á það. Nægir þar að nefna ítarlega áreiðanleikakönnun, kostnað vegna bankatryggingar og umsóknarferli til samkeppnisyfirvalda í 14 löndum.

„Úr því sem komið var þótti stjórnendum Actavis betra að sætta sig við kostnaðinn og draga sig út úr yfirtökuferlinu en að yfirbjóða Barr enn einu sinni. Kostnaðurinn upp á 2,2 milljarða krónur er ágætis áminning til fjárfesta að ekki er allt gull sem glóir þegar útrás og yfirtökur eru annars vegar," segir greiningardeild Glitnis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×