Viðskipti innlent

Afkoma Merck undir væntingum

Michael Roemer, stjórnarformaður Merck.
Michael Roemer, stjórnarformaður Merck. Mynd/AFP

Þýski lyfjaframleiðandinn Merk skilaði 144 milljóna evra hagnaði á þriðja fjórðungin ársins. Þetta svarar til tæplega 12,5 milljarða íslenskra króna og 20,5 prósenta samdráttar á milli ára. Afkoman var nokkuð undir væntingum greiningaraðila sem spáð höfðu 171 milljóna evra hagnaði eða 14,8 milljörðum króna. Kostnaður vegna kaupa á fyrirtækjum er helsta ástæðan fyrir samdrættinum.

Á sama tíma fyrir ári nam hagnaður lyfjafyrirtækisins 182 milljónum evra eða 15,7 milljörðum króna.

Tekjur námu hins vegar 1,54 milljörðum evra á tímabilinu eða 133,4 milljörðum króna sem er 5 prósenta aukning á milli ára. Mest var aukningin í krabbameinslyfinu Erbitux, en sala þess jókst um 46 prósent á þriðja ársfjórðungi.

Michael Roemer, stjórnarformaður Merck, segir afkomuna viðunandi.

Merck keypti 64,5 prósenta hlut í svissneska lyfjafyrirtækinu Serono í síðasta mánuði fyrir 16,6 milljarða franka eða 901 milljarð íslenskra króna. Það reyndi jafnframt að kaupa samkeppnisaðila sinn í Þýskalandi, Schering, fyrr á árinu fyrir 14,6 milljarða evrur, jafnvirði 1.264 milljarða íslenskra króna. Stjórn Schering hafnaði hins vegar tilboðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×