Viðskipti innlent

Skuldir heimilanna aukast

Skuldir heimila við bankakerfið hafa aukist um tæpan fjórðung frá

áramótum og námu alls 670 milljörðum króna í lok september samkvæmt nýbirtum tölum frá Seðlabankanum. Greiningardeild Glitnis segir útlán banka til heimila hafa vaxið hratt frá miðju ári 2004 í kjölfar sóknar þeirra á íbúðalánamarkað.

Í Morgunkorni Glitnis segir að langstærstur hluti skulda heimilanna við bankakerfið sé í formi verðtryggðra langtímalána, eða um 74 prósent af heildarskuldum. „Þessar skuldir hafa hækkað töluvert vegna hárrar verðbólgu undanfarið en þó virðist sýnt að aukið hafi verið við lántökuna," segir í Morgunkorninu.

Þá er athygli vakin á því að gengisbundnar skuldir hafa tvöfaldast frá áramótum og námu 56 milljörðum króna í septemberlok en það eru 9 prósent af heildinni. Einhver hluti þessarar aukningar er tilkominn vegna gengisbreytinga en þó er ljóst að almenningur hefur aukið töluvert við erlendar skuldir sínar undanfarið enda hefurgengisáhætta minnkað nokkuð með veikari krónu.

Þá námu yfirdráttarlán heimila 69 milljörðum króna um síðustu mánaðamót sem jafngildir 10 prósentum af heildarskuldum heimilanna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×