Viðskipti innlent

Forstjóraskipti hjá Kögun

Breytingar hafa verið gerðar á yfirstjórn Kögunar hf., dótturfélags Dagbrúnar. Gunnlaugur M. Sigmundsson hefur látið af störfum sem forstjóri Kögunar og hefur Bjarni Birgisson tekið við starfi hans. Þá hefur Jóhann Þór Jónsson verið ráðinn fjármálastjóri Kögunar hf.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að Gunnlaugur gegnt starfi forstjóra frá því félagið hóf starfsemi árið 1989 auk þess að vera einn helsti hvatamaður að stofnun þess. Gunnlaugur mun áfram gegna stjórnarformennsku í mörgum af dótturfélögum Kögunar. 

Bjarni Birgisson, sem tekur við af Gunnlaugi, er með M.Sc. gráðu í tölvunarfræði og hefur starfað hjá Kögun frá árinu 1991. Bjarni gegndi stöðu tæknistjóra og yfirmanns hugbúnaðardeildar íslenska loftvarnakerfisins til 1998 en hefur síðan byggt upp starfsemi Kögunar á sviði upplýsingtækni á innlendum og erlendum mörkuðum sem framkvæmdastjóri þróunardeildar.

Þá segir ennfremur að Jóhann Þór Jónsson sé viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hafi starfað hjá Kögun frá nóvember 2004. Hann hefur farið með mál dótturfélaga samstæðunnar auk þess að vera tengiliður fjárfesta.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×