Viðskipti innlent

Promens gerir tilboð í norskt fyrirtæki

Promens hf hyggst gera valfrjálst tilboð um kaup á öllu hlutafé norska plastfyrirtækisins Polimoon ASA, sem skráð er í Kauphöllinni í Osló. Tilboðið hljóðar upp á 32,50 norskar krónur á hlut, sem jafngildir heildarvirði hlutafjár Polimoon upp á 1.279 milljónir norskra króna eða 13,4 milljarða íslenskra króna.

Í tilkynningu frá Promens segir að tilboðið sé háð því skilyrði að Promens afli nægjanlegs fjármagns annars vegar með sambankaláni sem Landsbankinn mun veita forystu að afla og hins vegar með öflun á nýju hlutafé sem Atorka og Landsbankinn munu leiða. Stefnt er að því að skilyrði um fjármögnum verði aflétt sem fyrst og eigi síðar en formlegt yfirtökutilboð verður lagt fram.

Endanlegt tilboð Promens mun verða háð skilyrðum um samþykki 90 prósent hluthafa, viðunandi niðurstöðum lögfræðilegrar og fjárhagslegrar áreiðanleikakönnunar og samþykki viðeigandi yfirvalda.

Unnið er að gerð tilboðsgagna með ítarlegri upplýsingum og verður þeim drefit til hluthafa Polimoon að gengnu samþykki Kauphallarinnar í Osló. Áætlað er að dreifing gagnanna eigi sér stað í kringum 10. nóvember 2006.

Haft er eftir Ragnhildi Geirsdóttur, forstjóra Promens, að með kaupunum verði til leiðandi plastfyrirtæki á heimsvísu og tækifæri sameinaða fyrirtækið til frekari vaxtar séu veruleg. Með kaupum á Polimoon stækkar Promens verulega, sem er í samræmi við stefnu fyrirtækisins," segir Ragnhildur.

Tilkynning frá Promens til Kauphallar Íslands





Fleiri fréttir

Sjá meira


×