Viðskipti innlent

Mikil velta á verðbréfamarkaði

Innlendir aðilar keyptu erlend verðbréf fyrir 102 milljarða krónur á fyrstu níu mánuðum ársins. Þar er meirihluti þeirra eða um 64 milljarðar króna í hlutabréfum. Nettókaupin það sem af er ári eru mun meiri en á sama tímabili undanfarin ár, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Deildin segir í Morgunkorni sínu í dag að athyglisvert sé að veltan sé margfalt meiri í ár en hún hefur nokkru sinni verið áður.

Gengi innlendra fjárfesta á erlendum verðbréfamörkuðum veltur mikið á gengi íslensku krónunnar. Gengi krónunnar lækkaði um 14,5 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins og hefur verðmæti erlendra verðbréfa aukist af þeim sökum. Einnig hafa erlendar hlutabréfavísitölur hækkað á árinu en bandaríska S&P 500 hækkaði um 5,3 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins. Til samanburðar hækkaði úrvalsvísitala íslensku Kauphallarinnar um 13,6 prósent á sama tímabili.

Morgunkorn Glitnis






Fleiri fréttir

Sjá meira


×