Enski boltinn

Southgate hefur engar áhyggjur

Gareth Southgate hefur engar áhyggjur þó svo gæti farið að hann þyrfti að láta af störfum eftir nokkra daga
Gareth Southgate hefur engar áhyggjur þó svo gæti farið að hann þyrfti að láta af störfum eftir nokkra daga NordicPhotos/GettyImages

Gareth Southgate, stjóri Middlesbrough í ensku úrvalsdeildinni, segist aðeins vera að einbeita sér að því að vinna vinnuna sína þó undanþága hans til að þjálfa liðið falli úr gildi eftir 9 daga.

Southgate er aðeins 36 ára gamall og var óvænt ráðinn knattspyrnustjóri Boro í stað Steve McClaren þó hann hefði enga reynslu af þjálfun. Hann er því eðli málsins samkvæmt ekki með tilskilin þjálfunarréttindi frá evrópska knattspyrnusambandinu og undanþágan sem honum var veitt í upphafi leiktíðar rennur út eftir aðeins 9 daga. Það er því komin upp ansi neyðarleg staða í herbúðum félagsins, en stjórinn sjálfur segist engar áhyggjur hafa af þessu.

"Ég tek því sem að höndum ber í þessu og hef engar áhyggjur. Ég held bara áfram að vinna vinnuna mína og ef einhver kemur til mín og segir að ég megi það ekki lengur - verð ég auðvitað bara að hætta. Ég vil gjarnan halda áfram og reyna að ná góðum árangri með liðið, því mér finnst ég þurfa að sanna mig í starfinu. Það er hinsvegar í höndum stjórnarinnar að finna lausn á því hvort ég fæ að halda áfram og vonandi ná þeir að landa þessu máli á farsælan hátt," sagði Southgate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×