Enski boltinn

Er ekki fúll yfir því að sitja á bekknum

Hilario hefur slegið í gegn hjá Chelsea á undanförnum vikum.
Hilario hefur slegið í gegn hjá Chelsea á undanförnum vikum. Getty Images

Portúgalski markvörðurinn Hilario hjá Chelsea segist reiðubúinn að gefa sæti sitt í byrjunarliði liðsins til Ítalans Carlo Cudicini, sem er orðinn heill heilsu eftir að hafa fengið heilahristing í leik gegn Reading fyrir nokkrum vikum. Chelsea tekur á móti Tottenham á morgun.

Hilario þykir hafa staðið sig með afbrigðum vel í fjarveru Cudicini og Petr Cech og var til að mynda tekinn framyfir þann fyrrnefnda í leiknum gegn Barcelona á þriðjudag, jafnvel þó að Cudicini væri leikfær. En sjálfur segist Hilario ekki eiga von á því að vera í byrjunarliðinu mikið lengur.

"Ég var fenginn hingað sem þriðji markvörður og þó að ég hafi haft ómælda ánægju af því að spila þessa síðustu leiki verð ég ekki svekktur á því að setjast á bekkinn á ný. Cudicini er orðinn heill og ég býst við því að hann komi inn í liðið mjög fljótlega. Ég æfi vel og held mér í góðu formi og er tilbúinn þegar kallið kemur. En ég virði ákvörðun stjórans," segir Hilario og bætti því við að það sem skipti öllu máli er að Chelsea nái árangri.

"Hvort sem ég er á bekknum eða utan leikmannahópsins óska ég liðinu alltaf alls hins besta. Það er mikil samkeppni í öllum stöðum hjá Chelsea og leikmenn mega ekki taka því persónulega ef þeir fá ekki að spila," segir Hilario.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×