Enski boltinn

Tottenham lagði Chelsea

Michael Dawson fagnar marki sínu á White Hart Lane í dag.
Michael Dawson fagnar marki sínu á White Hart Lane í dag. Getty Images

Tottenham gerði sér lítið fyrir og lagði Englandsmeistara Chelsea af velli í viðureign liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur urðu 2-1 en það var Aaron Lennon sem skoraði sigurmarkið með stórglæsilegu marki.

Leikurinn var frábær skemmtun og hafði allt sem prýða skal góðan fótboltaleik. Claude Makelele kom Chelsea yfir í fyrri hálfleik með flottu marki en Michael Dawson jafnaði metin skömmu síðar með góðum skalla. Það var síðan Lennon sem tryggði heimamönnum sigurinn með frábæru vinstri-fótarskoti á 52. mínútu.

Mörkin hefðu getað orðið mun fleiri í leiknum því boðið var upp á flottan sóknarleik hjá báðum liðum. John Terry fékk að líta rauða spjaldið þegar um stundarfjórðungur var eftir þegar hann hlaut sitt annað gula spjald og reyndist brottreksturinn dýrkeyptur. Arjen Robben átti skot í stöng þegar nokkrar mínútur voru eftir en þrátt fyrir töluverða pressu Chelsea á lokamínútunum vildi boltinn ekki inn.

Chelsea er áfram í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum á eftir Man. Utd. en með sigrinum stökk Tottenham upp í það tíunda. Aston Villa er í 6. sæti eftir góðan 2-0 sigur á Blackburn fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×