Enski boltinn

Við áttum skilið að vinna

Martin Jol og lærisveinar hans hjá Tottenham voru kátir í leikslok.
Martin Jol og lærisveinar hans hjá Tottenham voru kátir í leikslok. Getty Images

Robbie Keane, framherji Tottenham, segir að liðið hafi einfaldlega átt sigurinn skilinn gegn Chelsea í dag. Jose Mourinho, stjóri Chelsea, er ekki á sama máli.

"Fyrir leikinn höfðum við á tilfinningunni að þetta gæti orðið okkar dagur og sú varð raunin. Við áttum þetta skilið," sagði Keane við breska fjölmiðla nú undir kvöld. "Stigin þrjú skipta auðvitað mestu máli og að komast ofar á töflunni en sigur gegn Chelsea er alltaf sérstaklega ljúfur. Chelsea er frábært lið með heimsklassa leikmönnum og þessi sigur mun gefa okkur mikið sjálfstraust," bætti Keane við og brosti.

Jose Mourinho, stjóri Chelsea, bar höfuðið hátt þrátt fyrir tapið og óskaði Tottenham til hamingju með sigurinn. "En við áttum ekki skilið að tapa hér í dag. Við vorum betri aðilinn stærstan hluta leiksins," sagði Mourinho sem kvartaði einnig undan Graham Poll, dómara leiksins.

"Ég skil ekki af hverju Poll vill alltaf vera svona mikið í sviðsljósinu," sagði Mourinho en Poll dæmdi mark frá Didier Drogba af í fyrri hálfleik og rak svo John Terry af velli í þeim síðari. "Aðeins Poll getur útskýrt hvað fékk hann til að taka þessar ákvarðanir," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×