Erlent

Þriggja daga þjóðarsorg vegna árása Ísraela

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg á svæðum Palestínumanna eftir að 18 óbreyttir borgarar, þar meðal átta börn, létust í árásum ísraleska hersins á íbúðabyggð í norðurhluta Beit Hanoun á Gasaströndinni í nótt. Þá munu 40 hafa særst í árásinni en fólkið var flest sofandi þegar hún var gerð.

Abbas kallaði í morgun eftir íhlutun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til þess að stöðva fjöldamorð Ísraela á Palestínumönnum eins og það var orðað í yfirlýsingu. Þá fór talsmaður Hamas-samtakanna fram á það að Ísrael yrði vikið úr Sameinuðu þjóðunum. Enn fremur hefur Ismail Hanieyh, leiðtogi Hamas-samtakanna, slitið viðræðum við Fatah-hreyfinguna um þjóðstjórn vegna sprengjuárásanna.

Ísraelski herinn segist hafa beint árásum sínum að svæði þaðan sem flugskeytum hefur verið skotið undanfarna daga en Amir Pertz, varnarmálaráðherra landsins, hefur fyrirskipað rannsókn á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×