Innlent

Á leið inn á Alþingi á ný þremur árum eftir fangelsisvist

Þremur árum eftir að Árni Johnsen losnaði úr fangelsi fyrir fjárdrátt og mútuþægni er hann á leið inn á Alþingi á ný. Árni kvaðst í dag kjósa að gleyma því sem liðið er en sækjast í það sem er fram undan.

Endurkoma Árna Johnsen inn á vettvang stjórnmálanna telst ein stærsta frétt helgarinnar en hann neyddist til að segja af sér þingmennsku fyrir fimm árum eftir að hann varð uppvís af margvíslegum afbrotum. Fyrir fjárdrátt, mútuþægni, umboðssvik og ranga skýrslugjöf var hann í Hæstarétti dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar sem hann afplánaði að mestu á Kvíabryggju á Snæfellsnesi.

Þjóðarathygli vakti þegar hann lauk afplánun þar fyrir þremur árum og tók með sér afrakstur refsivistarinnar, en fimm vörubíla þurfti til að koma þaðan tugum höggmynda sem Árni hafði smíðað.

Síðastliðið sumar veittu handhafar forsetavalds honum formlega uppreisn æru og óhætt er að segja að kjósendur í prófkjöri sjálfstæðismanna hafi sömuleiðis veitt honum uppreisn í gær. Árni þakkar stuðningsmönnum sínum en kýs að gleyma því sem liðið er en sækjast fremur í það sem er fram undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×