Erlent

Utanríkisráðherra Georgíu líkir Rússum við nasista

Fólk í Suður-Ossetíu sést hér kjósa um sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær.
Fólk í Suður-Ossetíu sést hér kjósa um sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. MYND/AP

Utanríkisráðherra Georgíu, Giorgi Baramidze, bætti í dag olíu á eldinn í samskiptum þeirra við Rússa þegar hann bar meðferð Rússa á Georgíumönnum í Rússlandi við meðferð nasista á gyðingum á fjórða áratug tuttugustu aldarinnar.

Rússar slitu upphaflega sambandi við Georgíumenn vegna þess að þeir höfðu vísað fjórum rússneskum herforingjum landi, grunuðum um njósnir. Deilan hefur líka versnað vegna fyrirætlanna Georgíumanna um að verða meðlimir í NATO og Evrópusambandinu.

Ástandið hefur einnig versnað vegna þess að tvö héruð í Georgíu vilja sjálfstæði frá Georgíu og héldu nýlega atkvæðagreiðslu um það og kom þar fram að nánast allir íbúar Suður-Ossetíu vilja sjálfstæði. Rússar hafa sakað Georgíumenn um að ætla að beita hernaðarvaldi í héruðunum á meðan Georgíumenn saka Rússa um að kynda undir óreiðu og erfiðleikum í héruðunum tveimur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×