Erlent

Tony Blair hvetur til samvinnu í málefnum Mið-Austurlanda

Tony Blair að halda ræðu sína í kvöld.
Tony Blair að halda ræðu sína í kvöld. MYND/AP

Í mikilvægri ræðu um utanríkismál sagði Tony Blair að mikilvægt væri að vinna með öllum löndum í Mið-Austurlöndum að friði og að það þýddi samstarf með Írönum og Sýrlandi. Talsmaður Blairs sagði hins vegar eftir ræðuna að þetta þýddi ekki að gefið yrði eftir í stefnu Bretlands varðandi þessi tvö ríki.

Ræðan sem að Blair hélt fjallaði um málefni Íraks, samskiptin við Bandaríkin og stöðu Bretlands innan Evrópu. Samstarfið við Bandaríkin sagði Blair vera mjög mikilvægt sem og aðild Breta að Evrópusambandinu.

Blair sagði ennfremur að það þyrfti að ræða við alla aðila ef á að reyna að ná lausn í þeim erfiðu málum sem eru í mið-austurlöndum, til að mynda deilurnar á milli Ísraels og Palestínu. Sendiherra Sýrlands í Bandaríkjunum sagði í dag að land hans væri tilbúið í samstarf til þess að koma á stöðugleika í þeirri deilu.

George W. Bush hefur hinsvegar hafnað öllum samskiptum við Írani þangað til þeir stöðva framleiðslu sína á auðguðu úrani en Bush setti á fót nefnd sem á að skoða hugsanlegar stefnubreytingar í Írak. Tony Blair mun tala við nefndina á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×